Vikið úr þingflokknum vegna ásakana

Chris Pincher var varaþing­flokks­formaður Íhalds­flokks­ins í Bretlandi.
Chris Pincher var varaþing­flokks­formaður Íhalds­flokks­ins í Bretlandi. AFP

Chris Pincher, sem þar til í gær var varaþing­flokks­formaður Íhalds­flokks­ins í Bretlandi, hefur verið vikið úr þingflokknum eftir ásakanir um að hann hafi þuklað á tveimur mönnum.

Á vef BBC segir að Pincher hafi verið vikið úr flokknum í kjölfar þess að hegðun hans var tilkynnt þinginu.

Mun hann sitja áfram sem óháður þingmaður.

Honum er gefið að sök að hafa í ölæði sínu veist að tveim­ur gest­um einka­sam­kvæm­is Carlt­on-klúbbs­ins í Picca­dilly.

Í annað sinn

Í gær sagði hann af sér sem varaþing­flokks­formaður flokksins en nú hefur honum verið vikið úr þingflokknum sjálfum.

Er þetta í annað skipti sem Pincher læt­ur af trúnaðar­störf­um fyr­ir flokk­inn vegna máls af slík­um toga. Hann var sakaður um óviðeig­andi hátt­semi í garð Alex Story, ólymp­íufara í róðri sem einnig er í Íhalds­flokkn­um, þegar Story var 26 ára.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert