Karlmaður var í gær handtekinn grunaður um að hafa skotið barnsmóður sína til bana er hún gekk með þriggja ára dóttur sína í vagni í New York í Bandaríkjunum. Barnið sakaði ekki.
New York Times greinir frá.
Maðurinn, Isaac Argro, var handtekinn seint í gær, samkvæmt lögreglu á svæðinu. Hann hefur verið ákærður fyrir morðið á Azsiu Johnson. Samkvæmt fjölskyldu hennar er Argro faðir barnsins sem var í vagninum þegar hún var myrt.
„Þetta var morð að yfirlögðu ráði,“ sagði Lisa Desort, móðir Johnson, í viðtali áður en Argro var handtekinn. „Hann ætlaði að drepa dóttur mína, sama hvað.”
Morðið kemur í kjölfar óhugnanlegrar bylgju byssuofbeldis í Bandaríkjunum sem hófst snemma í heimsfaraldrinum en virðist hafa minnkað á þessu ári.
Johnson var skotin í rólegri íbúðargötu í Upper east side hverfinu í Manhattan, að sögn lögreglu.