Alexander Lúkasjenkó, forseti Hvíta-Rússlands, sagði að her hans hefði skotið niður eldflaugar frá Úkraínu sem miðað var á landsvæði ríkisins.
„Það er verið að ögra okkur,“ hafði Belta, ríkisrekna fréttaveita Hvíta-Rússlands, eftir Lúkasjenkó.
„Ég verð að segja ykkur að fyrir þremur dögum, kannski meira, reyndu þeir að sprengja hernaðarskotmörk í Hvíta-Rússlandi með eldflaugum frá Úkraínu.“
Forsetinn þakkaði guði fyrir loftvarnakerfi ríkisins sem hann sagði hafa skotið niður eldflaugarnar.
Í síðustu viku sögðu yfirvöld í Úkraínu að Hvíta-Rússland hefði skotið eldflaugum á úkraínskt yfirráða svæði.
Lúkasjenkó neitar að ríkið blandi sér í átökin í Úkraínu. „Eins og ég sagði fyrir meira en ári, við ætlum ekki að berjast í Úkraínu.“
Hvíta-Rússland hefur þó stutt hernaðaraðgerðir Rússa síðan stríðið hófst 24. febrúar.