Barist um Lísítsjansk

Eyðileggingin í borginni er gríðarleg.
Eyðileggingin í borginni er gríðarleg. AFP

Bardagar geisa í Lísítsjansk þar sem Rússar hafa hert sókn sína. „Rússar eru að festa sig í sessi í hverfi Lísítsjansk, borgin logar,“ skrifaði Sergei Gaidai ríkisstjóri Lúgansk-héraðs, á samskiptamiðlinum Telegram.

„Þeir réðust á borgina með hrottalegum aðferðum,“ bætti hann við.

Lísítsjansk er síðasta stóra borgin á Lúgansk-svæðinu í Donbas sem er enn í höndum Kænugarðs.

Úkraínskir hermenn.
Úkraínskir hermenn. AFP

Borgin er staðsett hinum megin við ána frá nágrannaborginni Severódónetsk, sem rússneskar hersveitir hertóku í síðustu viku. Að ná yfirráðum í Donbas er nú meginmarkmið Rússa eftir að þeim mistókst að hertaka höfuðborgina.

Uppfærsla Gaidai barst nokkrum klukkustundum eftir að Úkraína neitaði fullyrðingum aðskilnaðarsinna um að þeir hefðu umkringt Lísítsjansk.

Hin mikla barátta um borgina á sér stað á sama tíma og Alexander Lúkasjenkó, leiðtogi Hvíta-Rússlands, sakaði Kænugarð um að ögra landinu sínu og sagði her sinn hafa stöðvað úkraínskar eldflaugar sem úkraínskar hersveitir skutu á lands hans fyrir þremur dögum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert