Þúsundir yfirgefa heimili í Sydney vegna flóðahættu

Frá Camden-hverfinu í Sydney.
Frá Camden-hverfinu í Sydney. AFP

Þúsundum íbúa Sydney í Ástralíu hefur verið gert að yfirgefa heimili sín vegna úrhellisrigningar og flóða sem flæða í útjaðri borgarinnar.

Vegir víðsvegar um borgina hafa verið lokaðir og að sögn yfirvalda voru að minnsta kosti 18 rýmingarfyrirmæli í gildi í vesturhluta Sydney.

„Þetta er lífshættulegt neyðarástand,“ sagði Stephanie Cooke, ráðherra neyðarþjónustu í New South Wales, við blaðamenn.

Miklar loftslagsbreytingar í Ástralíu

Ástralía hefur fundið fyrir miklum loftslagsbreytingum. Þurrkar, banvænir skógareldar, skemmdir í kóralrifinu og flóð eru miklu algengari en áður.

Cooke lýsti flóðunum sem „ástandi sem þróaðist hratt“ og varaði við því að fólk ætti að vera „viðbúið að rýma með skömmum fyrirvara“.

Warragamba stíflan í borginni byrjaði að leka snemma í morgun, sagði hún, langt á undan spám yfirvalda.

Cooke bað þá sem búa meðfram 500 kílómetra svæðis á austurströnd Ástralíu, bæði norður og suður af Sydney, að íhuga að hætta við ferðalög í skólafríi sem nú er í Ástralíu vegna veðurs.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert