Í varðhaldi fram til 28. júlí

Lögregla fyrir utan verslunarmiðstöðina í dag.
Lögregla fyrir utan verslunarmiðstöðina í dag. AFP

Árásarmaðurinn sem skaut þrjá til bana í Kaupmannahöfn í gær og særði sjö til viðbótar, þar af einn lífshættulega, skal sæta gæsluvarðhaldi fram til 28. júlí.

Þetta úrskurðaði dómari rétt í þessu.

Í úrskurðinum segir einnig að maðurinn, sem er 22 ára, skuli sæta varðhaldi á lokaðri geðdeild um leið og rými losnar.

Ástæða til að óttast frekari árásir

Í umfjöllun danska ríkisútvarpsins DR segir að dómarinn hafi lagt áherslu á myndskeið, myndir og viðtöl við vitni á vettvangi, og þá staðreynd að maðurinn hafði riffil í vörslu sinni er hann var tekinn höndum, er hann lagði mat á mögulega sekt hans.

Þá þyki ástæður til að óttast, ef maðurinn fái að ganga laus, að hann muni fremja álíka glæpi.

Einnig segir í úrskurðinum að maðurinn kunni að flækja rannsókn lögreglu með því að fjarlægja sönnunargögn og vísbendingar, sæti hann ekki varðhaldi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka