Morgunkornsrisinn Kelloggs tapaði í dag í Hæstarétti í Bretlandi, þar sem fyrirtækið mótmælti reglum sem breska ríkið setti framleiðendum til þess að takmarka sykurmagn í von um að minnka offitu barna.
Kelloggs, sem framleiðir einnig Rice Crispies, mótmælti aðferðum sem stjórnvöld notuðu til þess að mæla salt, fitu- og sykurmagn í morgunkorni þegar það er borðað eintómt.
Hæstiréttur sló því föstu að morgunkorn gætu verið hluti af heilbrigðu mataræði en næringargildi þess réttlætti ekki of mikið salt, fitu- eða sykurmagn. Slíkt hafi ennþá slæm áhrif á heilsu barna.
Um 54,7% af morgunkorni Kelloggs verður sett í flokk með „minna hollum“ matvælum, samkvæmt reglunum sem taka gildi í október. Kelloggs sagði þá fyrir rétti að breytingin myndi skerða tekjur um fimm milljónir punda eða 831 milljónir íslenskra króna á ársgrundvelli.