Gert er ráð fyrir að það muni kosta 750 milljarða dollara að endurbyggja Úkraínu eftir innrás Rússa í landið. Það gera rúmlega 100 billjónir íslenskra króna, eða 100.000 milljarða kr.
Forsætisráðherra Úkraínu, Denis Sjmíhal, hefur krafist þess að haldlagðar rússneskar eignir verði notaðar til að koma hinu stríðshrjáða land aftur í fyrra horf.
„Við teljum að lykilfjármagn enduruppbyggingarinnar sé í eignum Rússlands og rússneskra auðjöfra sem hafa verið gerðar upptækar,“ sagði hann á ráðstefnu um endurreisn Úkraínu í Sviss.
„Rússnesk yfirvöld leystu þetta blóðuga stríð úr læðingi, þau ollu þessari miklu eyðileggingu og þau ættu að bera ábyrgðina,“ sagði hann.
Forseti Úkraínu, Volodimír Selenskí, ávarpaði einnig ráðstefnuna í gegnum fjarfundarbúnað og lagði áherslu á það að endurbygging Úkraínu væri ekki staðbundið verkefni einnar þjóðar.
„Þetta er sameiginlegt verkefni alls lýðræðisheimsins,“ sagði hann og benti á að „endurreisn Úkraínu væri stærsta framlag til stuðnings alþjóðlegs friðar“.
Tveggja daga ráðstefnan var haldin í Lugano í suðurhluta Sviss og hafði verði skipulögð löngu fyrir innrásina. Upphaflega var á stefnuskrá að ræða um umbætur í Úkraínu.