Sex létust er skotið var á skrúðgöngu

Mikill viðbúnaður lögreglu er á svæðinu en hægra meginn á …
Mikill viðbúnaður lögreglu er á svæðinu en hægra meginn á myndinni má sjá teppi og útilegustóla sem var skilið eftir í kjölfar skotárásarinnar. AFP

Ungur maður varð sex að bana þegar hann skaut á skrúðgöngu sem var gengin í tilefni þjóðhátíðardags Bandaríkjanna í Higland-garði nálægt borginni Chicago í Illinois-ríki í Bandaríkjunum í dag.

Samkvæmt frétt Chicago Sun-Times um málið hófst skothríðin þegar tíu mínútur voru búnar af skrúðgöngunni. Öllum viðburðum þjóðhátíðardagsins á svæðinu hefur verið aflýst í kjölfar skotárásarinnar.

Að minnsta kosti sex létust í árásinni en þar að auki slösuðust 24 manns. Sumir þeirra slösuðu eru í mjög alvarlegu ástandi.

Byssumaðurinn 18 til 20 ára

Manninum sem grunaður er um verknaðinn er lýst sem hvítum manni á aldrinum átján til tuttugu ára með sítt svart hár. Mikill viðbúnaður lögreglu er á svæðinu en lögreglan leitar enn byssumannsins.

Biðlað er til fólks á svæðinu að leita sér skjóls og halda sig innandyra.

Þetta er ein af fjölda skotárása sem hafa átt sér stað í Bandaríkjunum á þessu ári en um 40 þúsund manns deyja á ári hverju þar í landi vegna byssuofbeldis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka