Þrír eru látnir og fjórir eru alvarlega særðir eftir skotárásina í verslunarmiðstöð í Kaupmannahöfn í gær. Þeir sem létust voru 17 ára danskur piltur, 17 ára dönsk stúlka og 47 ára maður með rússneskan ríkisborgararétt sem var búsettur í Danmörku.
Þeir fjórir sem eru særðir eru 40 ára og 19 ára konur, báðar danskir ríkisborgarar, og 50 ára maður og 16 ára stúlka, bæði sænskir ríkisborgarar.
Þessu greindi yfirlögregluþjónninn Søren Thomassen frá á blaðamannafundi, sem danska ríkisútvarpið sýndi í beinni útsendingu.
Þar fyrir utan eru nokkrir með minniháttar meiðsl eftir að hafa reynt að komast í burtu frá verslunarmiðstöðinni. Ekki er um skotsár að ræða í þeim tilfellum.
Skotárásin átti sér stað á tveimur stöðum í verslunarmiðstöðinni Field´s.
Lögreglan telur að árásin hafi verið handahófskennd og að árásarmaðurinn hafi til að mynda ekki framið árásina vegna kynþáttahaturs. Ekki er talið að hann hafi verið í slagtogi með öðrum. Ekkert bendir til þess að um hryðjuverk hafi verið að ræða.
Maðurinn var vopnaður riffli en var einnig með hníf á sér á meðan á árásinni stóð, sagði Thomassen, sem bætti við að lögreglan hafi vitað af því að maðurinn hafi haft aðgang að skammbyssu.
Þegar Thomassen var spurður hvort maðurinn hafi verið með byssuleyfi sagði hann útlit fyrir að vopnin sjálf væru lögleg en að hann hafi ekki haft leyfi fyrir notkun þeirra.
Lögreglan er búin að yfirheyra árásarmanninn, sem hefur játað að hafa verið á staðnum. Maðurinn fer fyrir dómara síðar í dag þar sem hann er sakaður um manndráp, en maðurinn hefur átt við andlega erfiðleika að stríða.
Thomassen sagði lögregluna ætla að vera sýnilega í Kaupmannahöfn í dag, bæði við Field´s og annars staðar.
„Það er mikilvægt að senda út skilaboð um að almenningur í Kaupmannahöfn upplifi sig öruggan,“ sagði hann.