Koma þýskum orkufyrirtækjum til bjargar

Gasverð hefur rokið upp í Þýskalandi og hafa gasfyrirtæki þar …
Gasverð hefur rokið upp í Þýskalandi og hafa gasfyrirtæki þar í landi lent í hremmingum í kjölfar stríðsátakanna í Úkraínu. AFP/Daniel Roland

Ríkisstjórn Þýskalands hefur samþykkt aðgerðir til að styrkja þýsk orkufyrirtæki sem hafa átt erfitt uppdráttar vegna stríðsástandsins í Úkraínu. Verð á gasi hefur farið ört hækkandi og þá hafa rússnesk stjórnvöld talað um að skrúfa fyrir allan útflutning á gasi til Þýskalands. 

Robert Habeck, efnahagsráðherra Þýskalands, sagði við fréttamenn í dag, að þýsk stjórnvöld ætli sér að koma í veg fyrir keðjuverkun þannig að þó að eitt orkufyrirtæki lendi í vanda, þá fari ekki öll orkufyrirtæki sömu leið. 

Um er að ræða neyðarlöggjöf sem er ætlað að tryggja stöðugleika orkufyrirtækja og þá kemur það til greina að ríkið eignist gerist hluthafi í slíkum fyrirtækjum. 

Þýska orkufyrirtækið Uniper, sem er einn stærsti innflytjandi á rússnesku gasi, átti í síðustu viku í viðræðum við þýsk stjórnvöld varðandi mögulegan björgunarpakka. 

Robert Habeck, efnahagsráðherra Þýskalands.
Robert Habeck, efnahagsráðherra Þýskalands. AFP

Um miðjan síðasta mánuð dróst innflutningur á gasi í gegnum Nord Stream-gasleiðsluna um 60%. Það hafði þau áhrif á rekstur Uniper að fyrirtækið varð að kaupa gas annars staðar frá á mun hærra verði en áður. Fyrirtækið getur ekki velt kostnaðinum áfram og hefur þessi aukni kostnaður þyngt róður Uniper verulega. 

Ýmsar leiðir hafa verið ræddar til að koma Uniper til aðstoðar, m.a. með því að lengja í lánalínum eða í gegnum fjárfestingar. Embættismenn telja að björgunarpakki til handa Uniper geti kostað í kringum 9 milljarða evra, sem jafngildir um 1.200 milljörðum kr.

Þýsk stjórnvöld hafa gagnrýnt harðlega ákvörðun rússneska orkufyrirtækisins Gazprom um að skerða afhendingu á gasi, sem Þjóðverjar fullyrða að sé pólitískt ákvörðun. Talsmenn Gazprom segja aftur á móti að þetta megi rekja til tafa á viðgerðum. 

Í kjölfar þessarar ákvörðunar ákvað þýska ríkisstjórnin að hækka viðbúnaðarstig í landinu hvað varðar dreifingu á gasi, sem þýðir að Þjóðverjar eru skrefi nær því að taka upp skömmtun á gasi.

Þýska stjórnin hefur ennfremur fyrirskipað að allar gasbirgðastöðvar í landinu verði með 90% nýtingu á geymslurými fyrir gas fyrir byrjun desember. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka