Skipulagði árásina vikum saman

Lögreglan á vettvangi eftir skotárásina í Chicago.
Lögreglan á vettvangi eftir skotárásina í Chicago. AFP

Maður, sem grunaður er um að hafa myrt sex manns í skrúðgöngu í gær – nálægt Chicago í Illinois-ríki í Bandaríkjunum, hafði skipulagt árásina í margar vikur, að sögn lögreglu.

Lögreglan telur að árásarmaðurinn hafi með löglegum hætti keypt kraftmikinn riffil sem hann notaði í árásinni.

Kemur fram í Chicago Tribune að talið sé að hinn grunaði hafi dulbúið sig í kvenfatnaði til að komast af vettvangi.

Sex létust í árásinni og að minnsta kosti 24 særðust. Fórnarlömbin sem létust voru á aldrinum átta til 85 ára.

Fjölskyldu fylgt heim frá skrúðgöngunni í gær.
Fjölskyldu fylgt heim frá skrúðgöngunni í gær. AFP

Fundu fleiri skotvopn

Chris Covelli, talsmaður starfshóps lögreglunnar um glæpi, sagði á blaðamannafundi að mörg skotvopn sem tilheyrðu árásarmanninum hefði fundist. Öll höfðu þau verið keypt á svæðinu.

Lögreglan er enn að safna saman upplýsingum um skotárásina en hinn grunaði árásarmaður er sakaður um að hafa skotið fleiri en 70 skotum.

Fórnarlömbin munu hafa verið skotin af handahófi og að sögn lögreglunnar er ekkert sem gefur til kynna að árásin sé rakin til kynþátta- eða trúarhaturs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka