Tólf handteknir vegna dauða átta ára stúlku

Bænirnar báru ekki árangur.
Bænirnar báru ekki árangur. Ljósmynd/Colourbox

Tólf manns úr trúarhópi hafa verið handteknir vegna dauða átta ára stúlku í Ástralíu.

Elizabeth Struhs, sem var sykursjúk, lést 7. janúar á heimili í borginni Brisbane eftir að hafa að sögn verið meinað um insúlín í næstum eina viku.

Fyrr á þessu ári voru foreldrar hennar sakaðir um morð, pyndingar og fyrir að að hafa ekki útvegað lífsnauðsynlegan búnað, að sögn BBC.

Lögreglan segist núna ætla að leggja fram kærur á hendur 12 manns til viðbótar á aldrinum 19 til 64 ára vegna dauða stúlkunnar.

Trúarhópurinn vissi af versnandi heilsufari Struhs en leitaði ekki hjálpar, að sögn lögreglunnar í Queensland.

Foreldrar hennar, Jason og Kerrie Struhs, eru hluti af litlum og nánum trúarhópi í borginni Toowoomba. Ástralskir fjölmiðlar segja hópinn ekki tengjast neinni stórri kirkju í landinu.

Lögreglan segir foreldrana, ásamt öðrum, hafa beðið fyrir því að Elizabeth myndi batna. Yfirvöld voru ekki látin vita fyrr en degi eftir að hún dó.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka