Ákærður fyrir fjöldamorð í Chicago

Lögreglan að störfum á vettvangi.
Lögreglan að störfum á vettvangi. AFP/ Jim Vondruska

21 árs karlmaður sem er grunaður um að hafa skotið sjö manns til bana í skrúðgöngu í bandarísku borginni Chicago 4. júlí hefur verið ákærður fyrir morð í sjö ákæruliðum.

Robert Crimo var handtekinn á mánudaginn, þó nokkrum klukkustundum eftir árásina á þjóðhátíðardegi Bandaríkjanna.

„Ákærurnar verða fleiri,“ sagði ríkissaksóknari Lake-sýslu, Eric Rinehart. „Við reiknum með tugum ákæra til viðbótar í kringum hvert fórnarlambanna.“

Fjöldi látinna eftir árásina jókst í sjö eftir að einn lést á sjúkrahúsi af sárum sínum. Yfir 35 manns særðust.

Að sögn CBC News voru þau Kevin McCarthy, 37 ára, og eiginkona hans Irina, 35 ára, foreldrar tveggja ára drengs, á meðal þeirra sem létust. Drengurinn fannst einn á vettvangi eftir árásina.

Að sögn talsmanns lögreglunnar, Christophers Covelli, er ekki vitað hvað árásarmanninum gekk til með árásinni. „Við teljum að Crimo hafi undirbúið þessa árás í þó nokkrar vikur,“ sagði hann og bætti við að enginn hafi verið í vitorði með honum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert