Íbúar Sloviansk hvattir til að flýja

Slökkviliðsmenn reyna að ráða niðurlögum elds eftir sprengjuárás Rússa á …
Slökkviliðsmenn reyna að ráða niðurlögum elds eftir sprengjuárás Rússa á Sloviansk í gær. AFP

Úkraínsk yfirvöld hafa beðið almenna borgara um að yfirgefa borgina Sloviansk í Donbas-héraði með hraði vegna þess að rússneskar hersveitir nálgast hana óðfluga.

Miklar sprengjuárásir hafa verið gerðar á Sloviansk undanfarna daga. Að minnsta kosti tveir fórust og sjö til viðbótar særðust í árás á markað í gær.

Pavlo Kyrylenko, héraðsstjóri Donetsk, sagði við úkraínska fjölmiðla að helstu ráð hans til almennings væru að yfirgefa borgina strax.

„Það hefur ekki liðið einn dagur án stórskotahríðar í þessari viku,“ sagði hann í gærkvöldi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert