Alvarlega særður eftir skotárás

Shinzo Abe árið 2020.
Shinzo Abe árið 2020. AFP

Ástand Shinzo Abe, fyrrverandi forsætisráðherra Japans, er mjög alvarlegt eftir að hann var skotinn í gær.

Þetta segir Fumio Kishida, forsætisráðherra landsins.

„Ég bið fyrir því að fyrrverandi forsætisráðherrann Abe lifi af,“ sagði Kishida. „Þetta er villimannslegt athæfi á meðan á kosningabaráttu stendur, sem er undirstaða lýðræðisins og þetta er algjörlega ófyrirgefanlegt. Ég fordæmi þennan verknaði harðlega.“

Árásin var gerð í borginni Nara, skömmu fyrir hádegi að japönskum tíma. Búið er að handtaka meinta árásarmanninn.

Abe, sem er 67 ára, var skotinn tvisvar þegar hann var að halda ræðu utandyra og hneig niður.

Mikill hávaði heyrðist 

Öryggisverðir voru staddir nálægt Abe þegar hann var að flytja ræðuna en áhorfendur gátu þó nálgast hann fremur auðveldlega.

Í myndbandi frá japönsku fréttastofunni NHK sést Abe standa á sviðinu þegar mikill hávaði heyrist og reykur sést.

Á sama tíma og áhorfendur og blaðamenn beygja sig niður sést þegar öryggisverðir stöðva árásarmanninn.

Japanskir fjölmiðlar segja árásarmanninn vera Tetsuya Yamagami, 41 árs. Hann er sagður vera fyrrverandi meðlimur varnarsveitar sjóhers Japans.


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert