Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, hefur undirritað forsetatilskipun til verndar þeim sem sækja þungunarrof og til að tryggja aðgang að getnaðarvörnum.
Mikill þrýstingur innan úr Demókrataflokknum hefur verið á Biden undanfarið á mótvægisaðgerðir eftir að hæstiréttur Bandaríkjanna felldi fordæmi dómsins Roe gegn Wade úr gildi og þar með stjórnarskrárbundinn rétt kvenna til að sækja þungunarrof.
Við úrskurðinn urðu þungunarrof ólögleg í nokkrum ríkjum Bandaríkjanna.
Forsetatilskipunin tekur meðal annars til öruggs aðgengis að þungunarrofslyfjum.
Þá er kveðið á um vernd kvenna gagnvart mögulegri refsingu við að sækja sér þungunarrof í öðru ríki og öruggan aðgang að getnaðarvörnum.
Einnig er að finna skref í áttina að persónuvernd þeirra sem sækja þungunarrof.
Kveðið er á um að heilbrigðisráðherra Bandaríkjanna, Xavier Becerra, skuli skila skýrslu um framgang ofangreindra mála innan þrjátíu daga.