Joe Biden Bandaríkjaforseti segist vera hissa, hneykslaður og gríðarlega sorgmæddur yfir morðinu á fyrrverandi forsætisráðherra Japans, Shinzo Abe.
Abe varð fyrir skotárás í morgun á meðan hann flutti kosningaræðu í japanska héraðinu Nara.
„Þetta er harmleikur fyrir Japan og alla sem þekktu Abe,“ segir í yfirlýsingu frá forsetanum.
„Meira að segja þegar hann lét lífið vann hann í þágu lýðræðisins. Bandaríkin standa með Japan á þessari sorgarstundu. Ég sendi fjölskyldu hans mínar dýpstu samúðarkveðjur.“
Barack Obama, fyrrum Bandaríkjaforseti, lýsti Abe sem vini sínum og gömlum félaga og sagði hann hafa gefið sig allan í að þjóna landinu sínu auk þess að stuðla að einstöku sambandi Bandaríkjanna og Japans.
Donald Trump, fyrrum Bandaríkjaforseti, tjáði sig einnig um morðið og sagði að vonandi yrði tekið hart á málinu. Um Abe sagði hann:
„Hann var einstakur leiðtogi en síðast en ekki síst maður sem elskaði og dáði sitt frábæra land, Japan. Shinzo Abe verður sárlega saknað.“