Rússneskur dómstóll dæmdi í dag rússneska borgarfulltrúann Alexei Gorinov í sjö ára fangelsi, fyrir að hafa „vísvitandi dreift villandi upplýsingum“ um rússneska herinn.
Gorinov, sem er sextíu ára gamall og situr í borgarráði Moskvu, er sakaður um að hafa kastað rýrð á rússneska herinn í myndbandi sem hann birti á Youtube, um innrás Rússa í Úkraínu. Hann er fyrsti meðlimur stjórnarandstöðunnar sem dæmdur er í fangelsi fyrir að hafa gagnrýnt innrásina.
Við uppkvaðningu dómsins í dag hélt Gorinov á blaði þar sem stóð: „Þarftu ennþá á þessu stríði að halda?“
Í myndbandinu sem hann birti á Youtube gagnrýndi hann áform um listakeppni barna í sínu kjördæmi, sem fer fram á meðan börn deyja á hverjum degi í Úkraínu.
Dómarinn, Olesya Mendeleleyeva sagði að Gorinov hafi framið glæpinn sem lið í hatursorðræðu sem var vandlega skipulögð af fjölda fólks.
Hún sagði að hann og borgarfulltrúinn Yelena Kotyonochkina, sem hefur þegar flúið landið, hafa gefið Rússum misvísandi upplýsingar um „hernaðaraðgerðir í Úkraínu“ og valdið því að fólk fyndi til ótta og kvíða.