Fjórir særðust í stunguárás sem átti sér stað á stóru sjúkrahúsi í Sjanghæ í Kína í morgun, að sögn lögreglunnar á staðnum. Árásarmaðurinn var skotinn og yfirbugaður af lögreglumönnum skömmu síðar.
Lögreglan í Huangpu-héraði sagði á samfélagsmiðlum að henni hafi borist neyðartilkynning klukkan 11:30 á laugardag um stunguárás á Ruijin sjúkrahúsinu í miðbænum.
„Lögreglan kom fljótt á vettvang og fann mann sem hélt hópi fólks í gíslingu með hníf á sjöundu hæð spítalans,“ segir í yfirlýsingunni.
„Þegar hinn grunaði ætlaði að særa gíslana og refsa lögreglunni skaut lögreglan skoti til að særa hann og yfirbuga hann.
Fjórir eru í meðhöndlun vegna sára sinna og eru „ekki í lífshættu,“ að því er kemur fram í yfirlýsingunni. Ástæður árásarmannsins eru enn óljósar.
Kínverskir fjölmiðlar birtu myndbönd sem sýna vopnaða lögreglumenn reyna að brjótast inn í læst herbergi á sjúkrahúsinu.
Fjöldaofbeldisglæpir eru sjaldgæfir í Kína, þar sem almennum borgurum er stranglega bannað að eiga skotvopn, en stunguárásir gerast stundum.
Undanfarin ár hefur fjöldi banvænna stunguárása í leikskólum og skólum átt sér stað á landsvísu. Árásarmennirnir eru sagðir hafa viljað hefna sín á samfélaginu.