Forsætisráðherra Srí Lanka tilbúinn að segja af sér

Þúsundir mótmæltu.
Þúsundir mótmæltu. AFP

Ranil Wickremesinghe, forsætisráðherra Srí Lanka, segist reiðubúinn að segja af sér til að rýma fyrir nýrri einingarstjórn.

Þetta staðfesti skrifstofa hans skömmu eftir að Gotabaya Rajapaksa, forseti Srí Lanka, flúði forsetabústað sinn þegar mótmælendur réðust á hann.  

„Til þess að tryggja öryggi borgaranna er hann sammála tilmælum leiðtoga stjórnarandstöðuflokkanna“ um að hætta, sagði skrifstofa Wickremesinghe.

Þúsundir mótmælenda hópuðust saman á götum úti í kringum heimili leiðtogans til að krefjast þess að hann segði af sér vegna óstjórnar stjórnvalda í fordæmalausri niðursveiflu.

Ranil Wickremesinghe, forsætisráðherra Srí Lanka.
Ranil Wickremesinghe, forsætisráðherra Srí Lanka. AFP

Stungu sér til sunds

Eftir að hafa ráðist inn í forsetahöllina mátti sjá hundruð manna í beinni útsendingu á samfélagsmiðlum ganga um herbergi hennar og sumir sáust stökkva í sundlaugina.

Sumir sáust hlæja og slappa af í virðulegum svefnherbergjunum þar sem einn dró fram það sem hann taldi vera par af nærbuxum forsetans.

„Forsetanum var fylgt í öruggt skjól,“ sagði heimildarmaður í samtali við AFP fréttastofuna „Hann er enn forseti, hann er verndaður af herdeildinni.“

Þrír voru lagðir inn á sjúkrahús eftir að hafa verið skotnir í óeirðunum ásamt 36 öðrum sem þjáðust af öndunarerfiðleikum eftir táragas, sagði talskona aðalsjúkrahússins í Colombo.

Mótmælendur stungu sér í sundlaugina við forsetahöllina.
Mótmælendur stungu sér í sundlaugina við forsetahöllina. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert