Múgur réðst inn í hús forsætisráðherra Sri Lanka í kvöld að staðartíma og kveikti í því. Frá þessu greina lögregluyfirvöld í landinu.
„Mótmælendur hafa brotist inn í einkaheimili forsætisráðherrans Ranil Wickremesinghe og lagt að því eld,“ segir einnig í tilkynningu frá embætti hans.
Fyrr í dag kvaðst hann reiðubúinn að segja af sér til að rýma fyrir nýrri einingarstjórn.
Þúsundir mótmælenda höfðu þá hópast saman á götum úti í kringum heimili leiðtogans til að krefjast þess að hann segði af sér vegna óstjórnar stjórnvalda í fordæmalausri niðursveiflu.