Hundruð manns mótmæltu fyrir utan Hvíta húsið í Washington í Bandaríkjunum í dag og kröfðust þess að Joe Biden Bandaríkjaforseti grípi til aðgerða til þess að auka réttindi kvenna til þungunarrofs.
Nokkur ríki hafa þegar bannað þungunarrof eftir úrskurð Hæstaréttar í máli Dobbs gegn Jackson, sem sneri við nærri 50 ára gömlu fordæmi sem fólst í dómnum í máli Roe gegn Wade.
Mótmælendur voru um 1.000 talsins, mestmegnis konur, sem hrópuðu: „Minn líkami, mitt val!“
„Stattu upp, Joe Biden!,“ sagði hin 37 ára Becca, sem kom til Washington frá Virginíu til þess að mótmæla. Hún hélt á spjaldi sem á stóð: „Þungunarrof strax og engar afsakanir“.
Biden fyrirskipaði vernd fyrir þá sem sækja um þungunarrof og til þess að tryggja aðgang að getnaðarvörnum í gær. Mótmælendum fannst þetta ekki nóg.
„Ég vil búa í samfélagi sem er ekki það sama og það sem amma mín þurfti að búa í. Mamma mín er búin að taka þessa baráttu á götum úti. Við ættum ekki að vera hérna í dag,“ sagði Becca í samtali við AFP.
Þegar Biden skrifaði undir tilskipunina hvatti hann Bandaríkjamenn til þess að kjósa fulltrúa í sínu ríki sem væru hlynntir þungunarrofi.