Það voru „óneitanlega“ gallar í öryggismálum fyrir Shinzo Abe, fyrrverandi forsætisráðherra Japan, að sögn lögreglustjórans á svæðinu þar sem Abe var myrtur.
Lögreglustjórinn í Nara-héraði, Tomoaki Onizuka, hefur heitið því að morðið verði rannsakað frekar en hann vildi ekki gefa frekar upplýsingar um hvaða annmarkar hefðu verið á öryggisáætluninni.
„Ég tel að það sé óumdeilt að það hafi verið vandamál með gæslu og öryggisráðstafanir fyrir Abe fyrrverandi forsætisráðherra,“ sagði Onizuka, við fréttamenn og hét því að „skilja vandamálin að fullu og grípa til viðeigandi aðgerða“.
Almennt er ekki gerð mikil krafa til öryggismála í Japan í kosningaherferðum eins og þessari þar sem Abe var skotinn. Lítið er um ofbeldisglæpi og byssulöggjöfin er ströng. Spurningar hafa þó vaknað varðandi hvort að aðgerðirnar hafi verið of slakar í ljósi þess hver var að koma fram.
„Síðan ég varð lögreglumaður árið 1995, á ferli mínum sem nær yfir 27 ár, er engin meiri eftirsjá, engin meiri eftirsjá en þetta,“ sagði lögreglustjórinn um andlát Abe.
Talið er að hinn grunaði, Yamagami Tetsuya, hafi skotið Abe með mjög banvænni byssu sem hann valdi úr safni nokkurra sem hann hafði búið til sjálfur.
Samkvæmt heimildarmönnum japönsku fréttastofunnar NHK bjó Tetsuya til margar gerðir af byssum úr stálpípum og límbandi.
Lögreglan segist hafa fundið heimatilbúna byssu sem var um 40 sentímetra löng á vettvangi. Auk þessi hafi þeir lagt hald á nokkrar svipaðar handgerðar byssur í íbúð hins grunaða.
Að sögn NHK mun sá grunaði hafa sagt við heimildarmann fréttastofunnar að hann hafi einnig búið til mismunandi gerðir af byssum með því að vefja saman tveimur, þremur, fimm og sex stálrörum með límbandi.
Þá mun hann sagst hafa prufukeyrt byssurnar eftir að hafa hlaðið hverja pípu með byssukúlu og að hlutirnir hefðu verið keyptir á netinu.