Rauð hitaviðvörun hefur verið gefin út fyrir morgundaginn á suðurhluta Gran Canaria, einni af Kanaríeyjum, þar sem hitinn gæti farið í 36 stig.
Appelsínugul veðurviðvörun er í gildi fyrir allar eyjarnar um helgina en heitast verður á Gran Canaria.
Á Tenerife helst hitinn í um 30 stigum og segir Anna Kristjánsdóttir, sem búsett er á Tenerife, að hitinn angri hana lítið.
„Það eru þægilegar 30 gráður núna. Mér líður best í þessum hita, enda er ég hér. Ég hef heyrt að fólk er að kvarta undan þessu samt, en það er fólk sem er gestkomandi,“ segir hún í samtali við mbl.is.
Þó þurfi þeir sem eru óvanir hitanum að fara varlega og drekka nóg af vatni.
Hitinn er meiri í Gran Canaria og er fólk þar hvatt til þess að halda sig innandyra frá klukkan 11 til 17 yfir daginn og drekka nóg af vatni. Á Spáni láta að jafnaði um 1.300 manns lífið á ári vegna hitabylgja.
„Gera eins og ég geri, fara í langan göngutúr að morgni,“ ráðleggur Anna.
Hitabylgju er spáð í Vestur- og Mið-Evrópu í seinnihluta júlí og hefur Veðurstofan því hvatt fólk til þess að skoða veðurspár áður en haldið er út.