Selenskí kallar sendiherrann í Þýskalandi heim

Selenskí lítur yfir kort yfir stöðuna í Dnípró-héraði í gær.
Selenskí lítur yfir kort yfir stöðuna í Dnípró-héraði í gær. AFP

Volodimír Selenskí forseti Úkraínu hefur kallað sendiherra landsins í Þýskalandi, Andrí Melník, aftur til heimalands síns.

Sendiherrar Úkraínu í Indlandi, Tékklandi, Noregi og Ungverjalandi hafa einnig verið kallaðir heim, að því er fram kemur í tilkynningu á vef forsetaembættisins.

Andrí Melník, hér fyrir aftan utanríkisráðherrann Dmítró Kúleba.
Andrí Melník, hér fyrir aftan utanríkisráðherrann Dmítró Kúleba. AFP

Átt háværa rödd

Þýsku dagblöðin Bild og Süddeutsche Zeitung greindu frá því á þriðjudag að búist væri við að Melník yfirgæfi sendiráðið í Berlín til að taka við annarri stöðu í utanríkisráðuneytinu í Kænugarði.

Melník hefur átt háværa rödd í umræðunni í Þýskalandi eftir að rússneski herinn réðst inn í Úkraínu í febrúar, eins og getið er í umfjöllun Deutsche Welle.

Ítrekaðar óskir hans um meiri aðstoð, sérstaklega í formi vopnaútflutnings frá Þýskalandi til Úkraínu, hafa ítrekað ratað í fyrirsagnir þýskra miðla.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert