Íslendingur ákærður fyrir morð og limlestingar á líki

AFP

Daníel Gunnarsson, Íslendingur á þrítugsaldri, verður ákærður fyrir morð og limlestingu á líki í Kern-sýslu í Kaliforníu síðar í þessum mánuði. Joseph A. Kinzel, varahéraðssaksóknari sýslunnar, staðfestir þetta í samtali við Fréttablaðið.

Dómari komst að þessari niðurstöðu á miðvikudaginn eftir mat á sönnunargögnum málsins en þann dag afsalaði Daníel rétti sínum til málflutnings og vitnaleiðslna um sönnunargögnin.

Daníel var handtekinn í maí í fyrra þar sem hann var grunaður um að hafa orðið fyrrverandi skólasystur sinni, Katie Pham, að bana og limlest lík hennar.

Áður hafði hann verið metinn ósakhæfur og ákveðið að hann skyldi fluttur á sjúkrastofnun þar sem hann skyldi hljóta viðeigandi aðhlynningu. Mál hans var tekið upp að nýju eftir mat geðlæknis um að hann væri nú tilbúinn að svara til saka.

Daníel á yfir höfði sér allt að lífstíðarfangelsi, verði hann sakfelldur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert