Hluti kjálkabeins sem fannst á norður Spáni í júní gæti verið elsti steingervingurinn sem finnst úr manneskju í Evrópu, að sögn steingervingafræðinga á Spáni.
Steingervingurinn sem fannst í Atapuerca á norðurhluta Spánar er talinn vera um 1,4 milljóna ára gamall. Fram að þessu hafði elsti steingervingurinn verið kjálkabein sem fannst á sama stað á Spáni árið 2007. Það var ályktað að hann væri 1,2 milljóna ára gamall.
Beinið sem fannst í síðasta mánuði fannst tveimur metrum dýpra í jarðveginum en kjálkabeinið sem fannst 2007 og því reikna fræðimenn á svæðinu með að það sé talsvert eldra.
Verður beinið núna fært á rannsóknarstofu í borginni Burgos sem er tíu kílómetrum frá Atapuerca. Þar verða gerðar rannsóknir á beininu til að leiða til lykta hversu gamalt það er í raun og veru. Að sögn Berumdez de Castro, framkvæmdastjóra fornleifastarfsemi á svæðinu, mun það taka sex til átta mánuði að staðfesta aldur steingervingsins.
Er talið mjög líklegt að beinið sé úr fyrstu tegund manna sem námu land í Evrópu, Homo antecessor.