Sex látnir eftir flugskeytaárás á fjölbýlishús

Að minnsta kosti 30 manns eru undir rústum byggingarinnar.
Að minnsta kosti 30 manns eru undir rústum byggingarinnar. AFP

Að minnsta kosti sex létu lífið og fimm særðust í árás Rússa í morgun á fjölbýlishús í bænum Tjasív Jar í austurhluta Úkraínu, að sögn svæðisstjóra.

„Björgunaraðgerðir eru hafnar. Björgunarmönnum hefur tekist að koma út sex látnum og fimm særðum,“ sagði Pavló Kírílenkó, ríkisstjóri Dónetsk, á samskiptamiðlinum Telegram.

„Að minnsta kosti 30 aðrir eru undir rústum fjögurra hæða byggingarinnar," sagði hann, eftir að rússneskt flugskeyti af tegundinni Úragan lenti á henni.

Byggingin eyðilagðist að hluta, að sögn fréttaritara AFP sem sögðu björgunarsveitarmenn ryðja svæðið með vélrænni gröfu.

Björgunaraðgerðir eru hafnar.
Björgunaraðgerðir eru hafnar. AFP

591 almennur borgari látist

„Björgunarmenn hafa hingað til náð sambandi við tvo menn undir rústunum,“ sagði Kírílenkó.

Að sögn ríkisstjórans hefur 591 almennur borgari verið drepinn og 1.548 aðrir hafa særst í Dónetsk-héraði frá því að innrás Rússa hófst 24. febrúar.

Eftir bardaga sem miðað hafa að því að ná yfirráðum í Lúgansk-héraðinu, reyna Rússar nú að ná einnig að tryggja yfirráð yfir Dónetsk-héraðinu en saman mynda Dónetsk og Lúgansk Donbas-svæðið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert