Hlutabréf í spilavítum í Macau í Kína lækkuðu í morgun þegar gripið var til útgöngubanns í borginni til að stemma stigu við kórónuveirufaraldrinum sem hefur ekki verið jafn slæmur í borginni síðan í byrjun faraldurs.
Macau, fjárhættuspilahöfuðborg Asíu, er eini staðurinn í Kína þar sem spilavíti eru lögleg.
Þetta er í fyrsta skipti sem spilavítin verða að loka í meira tvö ár sem er þvert á samning milli spilavítanna og stjórnvalda í Macau sem sagði að aðeins þeir staðir þar sem smit kæmu upp yrðu að loka.
Hlutabréfaverð sex fyrirtækja - Sands China, Galaxy Entertainment, SJM Holdings, Melco International, MGM China og Wynn Macau - lækkuðu um á milli sex og níu prósent í viðskiptum morgunsins.
Yfirvöld tilkynntu um vikulangt útgöngubann frá og með deginum í dag en fleiri en 1.500 smit hafa greinst undanfarnar þrjár vikur.
Allir íbúar Macau verða að vera heima nema til að versla nauðsynjavörur og fara í sýnatöku fyrir Covid-19. Þeir sem brjóta reglurnar gætu átt yfir höfði sér allt að tveggja ára fangelsi.