Bandaríkjamaður og tveir Spánverjar voru stungnir af nautum á meðan á fimmta nautahlaupinu af átta stóð í spænsku borginni Pamplona.
Nautin skiptu liði og eitt þeirra hljóp á eftir hinum sem gerði það að verkum að enn erfiðara var fyrir hlaupara að komast hjá því að vera stungnir. Þó nokkrir féllu í götuna þegar nautin hlupu þar um á fullri ferð.
Í sjónvarpinu sást þegar eitt nautanna feykti einum hlauparanum ítrekað upp í loftið.
29 ára Spánverji var stunginn í hnéð og hinir tveir voru stungnir inni í nautahring við endamörk hlaupsins. Einn þeirra var 25 ára Flórídabúi sem var stunginn í fótlegginn og hinn var 29 ára Spánverji sem fékk stungu í nárann.
Þrír aðrir hlauparar voru fluttir á sjúkrahús eftir að hafa meiðst við fall í götuna.
Nautin sem hlaupa á hverjum morgni eru drepin seinnipart dags af nautabönum.
Nautahlaupunum er sjónvarpað á hverjum morgni og eru þau hápunktur níu daga hátíðar sem rithöfundurinn Ernest Hemingway gerði heimsfræga í skáldsögunni The Sun Also Rises frá árinu 1926.
Sextán manns hafa dáið í nautahlaupum frá árinu 1910. Síðast gerðist það árið 2009 þegar 27 ára Spánverji var stunginn í hálsinn, hjartað og lungun.