Hagsmunavörður (e. lobbyist) hjá akstursþjónustunni Uber, Mark MacGann, hefur stigið fram sem uppljóstrari Uber-skjalanna.
Um 124.000 skrám var lekið til breska fjölmiðilins Guardian en á meðal þeirra eru 83.000 tölvupóstar. Gögnin afhjúpa til dæmis hvernig Uber hefur beitt sér í samskiptum við hátt setta stjórnmálamenn sem og ámælisverða verkferla fyrirtækisins sem var ætlað að tryggja að lögregla fengi ekki aðgang að tölvum fyrirtækisins.
MacGann var fremstur í flokki í hagsmunagæslu fyrirtækisins í Evrópu, Afríku og í Mið-Austurlöndum frá árinu 2014 til 2016.
Hann segir að hann hafi stigið fram vegna þess að hann teljii að Uber hafi brotið lög í tugum landa og kynnt viðskiptialíkan fyrirtækisins á misvísandi hátt.
„Ég var sá sem talaði við ríkisstjórnir. Ég var sá sem ýtti málum áfram í fjölmiðlum. Ég var sá sem sagði fólki að það ætti að breyta reglunum því ökumenn myndu hagnast á því og fólk ætti eftir að fá svo mörg fjárhagsleg tækifæri vegna þess,“ sagði MacGann í viðtali við Guardian.
„Þegar í ljós kom að það var ekki tilfellið – við höfðum í raun selt fólki lygar – hvernig getur þú haft hreina samvisku ef þú stendur ekki upp og gengst við eigin framlagi að því hvernig komið er fram við fólk í dag?“