Stjórnmálamenn í stjórnarandstöðu Frakklands hafa kallað eftir þingrannsókn á Emmanuel Macron, forseta landsins, í kjölfar Uber-gagnalekans sem sýnir meðal annars að forsetinn hafi veitt farveitunni Uber víðtæka aðstoð við að ryðja sér til rúms á markaði þegar hann var efnahagsráðherra landsins og við að koma leigubílaiðnaði úr jafnvægi.
The Guardian greinir frá.
Greint var frá lekanum í gær, en um 124.000 skrám var lekið og á meðal þeirra eru 83.000 tölvupóstar. Var þeim upphaflega lekið til fjölmiðilsins The Guardian.
Vinstrisinnaði þingmaðurinn Aurélien Taché sagði í viðtali við útvarpið France Info: „Þetta er næstum eins og slæm spennumynd - fundir og stefnumót sem voru falin.“
Sagði hann einnig að rannsaka yrði það að fyrirtækið hafi óskað eftir aðstoð Macron er eftirlitsmenn ríkisins leituðu gagna á einum af skrifstofum þeirra.
Þá sakaði hægrisinnaði þingmaðurinn Jordan Bardella forsetann um að þjóna einkahagsmunum, oft erlendum, fremur en þjóðarhagsmunum.
Aurore Bergé, þingflokksformaður flokks Macron, sagði forsetann einfaldlega hafa verið að sinna starfi sínu og gert það vel. Hún sagði við CNews að Uber hefði búið til þjónustu sem Frakkar vildu nýta sér og Macron hefði réttilega auðveldað komu fyrirtækja sem sköpuðu störf í landinu.