Biðla til flugfélaga að hætta að selja miða

Heathrow-flugvöllur segist aðeins ráða við 100.000 brottfararfarþega á dag.
Heathrow-flugvöllur segist aðeins ráða við 100.000 brottfararfarþega á dag. AFP

Heathrow-flugvöllur hefur beðið flugfélög um að hætta að selja flugfarmiða fyrir sumarið. Völlurinn hefur átt í vandræðum með að eiga við þann mikla straum ferðamanna sem nú fer þar um. 

Flugvöllurinn hefur takmarkað fjölda farþega sem geta flogið frá vellinum dag hvern yfir sumarmánuðina við 100.000 en það eru 4.000 færri en nú er áætlað, að því er kemur fram í frétt breska útvarpsins.

Þúsundir ferðamann sem eiga flug frá Bretlandi hafa orðið fyrir áhrifum af truflunum undanfarnar vikur, þar á meðal hefur flugum þeirra verið aflýst á síðustu stundu.

Flugvellir og flugfélög sem sögðu upp starfsfólki í Covid hafa átt í erfiðleikum með að ráða starfsfólk aftur nú þegar ferðamannaiðnaðurinn hefur tekið við sér.

Ekki hægt að þjónusta á ásættanlegan hátt

Flugfélögum var gert kleift að gera breytingar á flugskipulagi í sumar án þess að vera sektuð en þrátt fyrir það eru flugin of mörg til að hægt sé að þjónusta þau á ásættanlegan hátt, að sögn John Holland-Kaye framkvæmdastjóra Heathrow. 

„Undanfarnar vikur, þegar brottfararfarþegar hafa reglulega farið yfir 100.000 á dag, höfum við séð stundir þar sem þjónusta fer niður á stig sem er ekki ásættanlegt: langar biðraðir og tafir, töskur sem ferðast ekki með farþegum eða koma seint, lítil stundvísi og afbókanir á síðustu stundu,“ sagði Holland-Kaye og bætti við að þeirra mat væri að flugvöllurinn gæti ekki þjónað fleiri farþegum en 100.000 daglega.

Þá sagði hann nýjustu spár benda til þess að brottfararfarþegar í sumar yrðu að meðaltali 104.000, eða 4.000 of margir á dag.

„Í augnablikinu hafa að meðaltali aðeins um 1.500 af þessum 4.000 daglegu sætum verið seld til farþega og því erum við biðja samstarfsaðila okkar um að hætta að selja sumarmiða til að takmarka áhrif á farþega.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert