Forseti Srí Lanka flýr heimaland sitt

Árið 2019 þegar lífið lék við bræðurna Mahinda Rajapaksa, þáverandi …
Árið 2019 þegar lífið lék við bræðurna Mahinda Rajapaksa, þáverandi forsætisráðherra Srí Lanka, og Gotabaya Rajapaksa, forseta Srí Lanka. AFP/Ishara S. Kodikara

Gotabaya Rajapaksa, forseti Srí Lanka, hefur flúið heimaland sitt og er nú kominn til Maldíveyja.

Forsetinn flaug, ásamt eiginkonu og lífverði, með Antonov-32 herflugvél frá alþjóðaflugvelli í Srí Lanka til Maldíveyja.

Er þau lentu voru þau flutt með lögreglufylgd á ótilgreindan stað, hefur AFP eftir flugvallastarfsmanni á svæðinu.

Efnahagurinn aldrei verri

Ásamt öðrum stjórnmálamönnum í landinu hefur forsetinn verið mikið gagnrýndur, en efnahagsástand í eyríkinu hefur aldrei verið verra.

Rajapaksa sagði um helgina að hann ætlaði sér að segja starfi sínu lausu á miðvikudag til að greiða fyrir friðsamlegum stjórnarskiptum. Tugir þúsunda mótmælanda brutust inn í heimili hans í höfuðborginni Colombo.

Ásamt sögulegum efnahagsvandræðum í landinu hefur eyríkið nánast klárað allan eldsneytisforða sinn. Ríkisstjórnin hefur fyrirskipað lokanir á ónauðsynlegum skrifstofum og skólum til að minnka ferðir á milli staða og spara þannig eldsneyti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert