Forsetinn reynir að flýja með skipi

Gotabaya Rajapaksa, forseti Srí Lanka.
Gotabaya Rajapaksa, forseti Srí Lanka. AFP

Gotabaya Rajapaksa, forseti Srí Lanka, hélt til flotastöðvar í dag með það fyrir augum að flýja eyjuna með skipi, eftir að tilraun til að fljúga frá flugvellinum mistókst.

Öllum farþegum var á mánudaginn gert að fara í gegnum opinbera innritun á alþjóðaflugvellinum í Srí Lanka. Forsetinn og fylgdarlið hans fóru ekki í gegnum þá leið af ótta við viðbrögð almennings og misstu þar af leiðandi af fjórum flugferðum til Dúbaí.

Tilraunir til að skipuleggja herflug mistókust einnig þar sem rými til lendingar var ekki tiltækt strax. Gistu forsetahjónin á flugherstöð við hliðina á flugvellinum í nótt. Hópurinn yfirgaf herstöðina síðdegis í dag í tveimur þyrlum á leið til hafnar í Trincomalee.

Besti kosturinn að fara með skipi

Háttsettur heimildarmaður í varnarmálum sagði besta kostinn vera að fara úr landi með skipi og er það nú til umræðu. „Hann gæti farið til Maldíveyja eða Indlands og fengið flug til Dúbaí.“

Forsetinn hefur lofað að segja af sér á miðvikudag í kjölfar víðtækra mótmæla gegn honum en tugþúsundir mótmælenda réðust á forsetabústaðinn á laugardaginn.

Sem forseti nýtur Rajapaksa friðhelgi gegn handtöku og talið er að hann vilji fara úr landi áður en hann lætur af embætti til að forðast möguleikann á varðhaldi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert