Mo Farah seldur mansali sem barn

Sir Mo Farah, einn besti langhlaupari sögunnar.
Sir Mo Farah, einn besti langhlaupari sögunnar. AFP

Sir Mo Farah, einn besti langhlaupari sögunnar, var seldur mansali og fluttur ólöglega til Bretlands þegar hann var níu ára gamall. Hann hafði upphaflega sagst hafa komið til landsins sem flóttamaður frá Sómalíu með foreldrum sínum.

Þetta kemur fram í heimildamynd BBC sem sýnd verður annað kvöld.

Farah sagðist hafa fengið nafnið Mohamed Farah frá þeim sem fluttu hann til Bretlands frá Djíbútí í Afríku en hans rétta nafn sé hins vegar Hussein Abdi Kahin.

Í heimildamyndinni segist hann aldrei áður hafa séð konuna sem flaug með hann til Bretlands og þegar hann kom til landsins hafi hann verið látinn gera húsverk og hugsa um börn. Hann fékk ekki að ganga í skóla fyrr en hann var orðinn 12 ára gamall.

Skyldi þegja ef hann vildi fá að borða

Honum var sagt að hann skyldi þegja ef hann vildi borða og sjá fjölskyldu sína aftur. „Ég læsti mig oft inni á baði og grét,“ segir Farah.

Konan sem flaug með hann til Bretlands hafði upphaflega sagt honum að hann væri að fara til Evrópu til að búa hjá fjölskyldumeðlimum sínum. Farah segist hafa verið spenntur enda hafi hann aldrei fyrr flogið um borð í flugvél. Þá hafi konan sagt honum að hann ætti að segjast heita Mohamed og hafði hún í för með sér fölsuð ferðaskírteini fyrir hann.

Þegar komið var til London tók konan af honum blaðsefni með tengiliðaupplýsingum fjölskyldu hans. Þá vissi Farah að hann væri í vandræðum.

Sagði loks íþróttakennaranum

Þegar Farah fékk loks að fara í skóla talaði hann litla ensku og lokaður en var allt annar þegar hann fékk að hlaupa í íþróttatímum. „Eina tungumálið sem hann virtist skilja var tungumál íþrótta,“ sagði íþróttakennarinn Alan Watkinson. Sjálfur hefur Farah sagt að hlaupið hafi verið líflínan hans.

Loks sagði hann íþróttakennaranum frá því hver hann væri í raun og veru og að hann væri neyddur til að vinna hjá þeim sem sögðust vera fjölskylda hans. Hún hafði samband við yfirvöld og hann fór í fóstur hjá fjölskyldu frá Sómalíu.

„Ég saknaði enn fjölskyldunnar minnar, en frá þessari stundu varð allt betra,“ segir Farah í heimildamyndinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert