Musk vill að Trump láti þetta gott heita

Donald Trump og Elon Musk elda grátt silfur á samfélagsmiðlum …
Donald Trump og Elon Musk elda grátt silfur á samfélagsmiðlum þessa dagana. AFP

Það er orðið tímabært Donald Trump láti staðar numið að mati auðkýfingsins Elon Musk. 

„Ég hata manninn ekki, en það er orðið tímabært að Trump taki að ofan hattinn og sigli inn í sólsetrið,“ lét Musk hafa eftir sér í færslu á Twitter, í kjölfar þess að Trump kallaði Musk loddara á stjórnmálasamkomu nýverið.

Þetta kemur fram í frétt Reuters. 

Elon Musk segist ekki hata Trump.
Elon Musk segist ekki hata Trump. AFP

Vill að Demókratar láti Trump í friði

Þá bætti Musk við að hann sé þeirrar skoðunar að demókratar eigi að hætta atlögum sínum að Trump, enda muni þær leiða til þess að eina leið Trump til að standast aðkastið sé að komast aftur í Hvíta húsið. 

Á umræddri stjórnmálasamkomu sagði Trump að Musk væri ekki á leið með að festa kaup á Twitter og ljóst væri að hann hefði á höndum sér allsherjar klúður. Trump kallaði Musk loddara, vegna þess að Musk hafði haldið því fram að hann hafi aldrei kosið repúblíkana. „Hann sagði mér að hann hefði kosið mig,“ bætti hann svo við.

Trump of gamall í lok kjörtímabilsins

Á efnahagsráðstefnu í Katar, sagði Musk að hann væri ekki búinn að ákveða hvern hann ætlaði að kjósa í næstu forsetakosningum Bandaríkjanna. Viku fyrr hafði hann þó tilkynnt á Twitter reikningi sínum að hann væri að hallast að því að styðja ríkisstjórann í Florida, Ron DeSantis. 

Í gær bætti hann svo við þessa yfirlýsingu að ef DeSantis færi í framboð gegn Joe Biden, núverandi forseta, myndi DeSantes vinna með yfirburðum. 

„Trump væri  82 ára við lok kjörtímabilsins, sem er of hár aldur fyrir framkvæmdarstjóra hvers sem er, hvað þá Bandaríkjanna.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert