Musk vill að Trump láti þetta gott heita

Donald Trump og Elon Musk elda grátt silfur á samfélagsmiðlum …
Donald Trump og Elon Musk elda grátt silfur á samfélagsmiðlum þessa dagana. AFP

Það er orðið tíma­bært Don­ald Trump láti staðar numið að mati auðkýf­ings­ins Elon Musk. 

„Ég hata mann­inn ekki, en það er orðið tíma­bært að Trump taki að ofan hatt­inn og sigli inn í sól­setrið,“ lét Musk hafa eft­ir sér í færslu á Twitter, í kjöl­far þess að Trump kallaði Musk lodd­ara á stjórn­mála­sam­komu ný­verið.

Þetta kem­ur fram í frétt Reu­ters. 

Elon Musk segist ekki hata Trump.
Elon Musk seg­ist ekki hata Trump. AFP

Vill að Demó­krat­ar láti Trump í friði

Þá bætti Musk við að hann sé þeirr­ar skoðunar að demó­krat­ar eigi að hætta at­lög­um sín­um að Trump, enda muni þær leiða til þess að eina leið Trump til að stand­ast aðkastið sé að kom­ast aft­ur í Hvíta húsið. 

Á um­ræddri stjórn­mála­sam­komu sagði Trump að Musk væri ekki á leið með að festa kaup á Twitter og ljóst væri að hann hefði á hönd­um sér alls­herj­ar klúður. Trump kallaði Musk lodd­ara, vegna þess að Musk hafði haldið því fram að hann hafi aldrei kosið re­públík­ana. „Hann sagði mér að hann hefði kosið mig,“ bætti hann svo við.

Trump of gam­all í lok kjör­tíma­bils­ins

Á efna­hags­ráðstefnu í Kat­ar, sagði Musk að hann væri ekki bú­inn að ákveða hvern hann ætlaði að kjósa í næstu for­seta­kosn­ing­um Banda­ríkj­anna. Viku fyrr hafði hann þó til­kynnt á Twitter reikn­ingi sín­um að hann væri að hall­ast að því að styðja rík­is­stjór­ann í Florida, Ron DeS­ant­is. 

Í gær bætti hann svo við þessa yf­ir­lýs­ingu að ef DeS­ant­is færi í fram­boð gegn Joe Biden, nú­ver­andi for­seta, myndi DeS­an­tes vinna með yf­ir­burðum. 

„Trump væri  82 ára við lok kjör­tíma­bils­ins, sem er of hár ald­ur fyr­ir fram­kvæmd­ar­stjóra hvers sem er, hvað þá Banda­ríkj­anna.“

mbl.is
Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert