Hiti hefur farið yfir 40 stig á suðurhluta Íberíuskagans, víðs vegar um Spán og Portúgal. Veðurfræðingar gera ráð fyrir því að hitabylgjan færist norðar og austar á næstu dögum. Í Sevilla á suðurhluta Spánar gera spár ráð fyrir 44 gráðum.
Slökkvilið á Spáni og í Portúgal hafa átt í fullu fangi með að berjast við skógarelda sem þar hafa verið að kvikna, hver af öðrum. Eru þeir afleiðing þessa öfgafulla hita sem ógnar tilvist jökla í Alpafjöllum og gerir þurrkatímabilið enn þungbærara.
„Við eigum von á því að ástandið versni,“ segir Clare Nullis, talsmaður Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar í Genf. Hún bendir á að jarðvegur sé skraufþurr vegna hitans og á að jöklar í Alpafjöllum séu að bráðna.
Þá hefur hún sérstakar áhyggjur í ljósi þess að enn eru margar vikur eftir af sumri.
Um 300 slökkviliðsmenn hafa staðið í ströngu við að slökkva elda í austurhluta Extremadura héraðsins á Spáni sem tekist hefur að læsa sig um 2.500 hektara af landsvæði. Búist er við því að það muni taka nokkra daga til viðbótar að slökkva þessa elda, sem brutust út á mánudag.
Heilbrigðisyfirvöld á Spáni vara við alvarlegum afleiðingum svo mikils hita. Fólk er hvatt til þess að drekka nóg af vatni, klæðast léttum fötum og eyða sem mestum tíma í skugga eða inni í loftræstu rými.
Í Frakklandi hefur hiti náð 30 stigum víða og fer í allt að 39 stig á nokkrum stöðum í dag. Forsætisráðherra Frakklands, Elisabeth Borne, varaði ráðherra við því að hitabylgjan muni vara í allt að tíu daga. Flugeldasýningum vegna 14. júlí, þjóðhátíðardags Frakka, hefur verið aflýst í minnst 20 bæjum og borgum sökum eldhættu.
Þá er útlit fyrir að hitabylgja í Bretlandi nái hámarki á sunndag. Líkur eru á að hitametið frá því í júlí 2019, verði slegið, en þá mældust 37,8 gráður í Cambridge.