Breskir sérsveitarmenn hafi myrt óvopnaða í Afganistan

Varnarmálaráðuneyti Bretlands segist ekki geta tjáð sig um einstaka ásakanir.
Varnarmálaráðuneyti Bretlands segist ekki geta tjáð sig um einstaka ásakanir. AFP/Dimitar Dilkoff

Meðlimir í bresku sérsveitinni myrtu ítrekað fanga og óvopnaða menn við grunsamlegar aðstæður í Afganistan.

Þetta kemur fram í umfjöllunn breska útvarpsins

Nýlegar hernaðarskýrslur benda til þess að ein hersveit hafi drepið 54 einstaklinga með vafasömum hætti í sex mánaða ferð sinni.

Þá hefur BBC gögn undir höndum sem benda til þess að fyrrverandi yfirmaður sérsveitarinnar hafi ekki komið sönnunargögnum um morðin á framfæri við rannsókn á málinu.

Keppni um að drepa sem flesta

Einstaklingar sem þjónuðu í bresku sérsveitinni hafa sagt við BBC að þeir hafi orðið vitni að því að meðlimir í sérsveitinni hafi drepið óvopnað fólk í næturárásum. Nokkrir viðmælendur BBC hafa einnig sagt að hersveitirnar hafi verið í keppni sín á milli um að drepa sem flesta.

Þá sýna tölvupóstar að yfirmenn sérsveitarinnar hafi verið meðvitaðir um að hugsanlega væri verið að drepa með vafasömum hætti, en þær grunsemdir voru ekki tilkynntar þrátt fyrir að þeim beri lagaleg skylda til þess.

Varnarmálaráðuneytið í Bretlandi segist ekki geta tjáð sig um einstaka ásakanir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert