Syrgjendur komu saman vegna útfarar Abe

Útförin var lokuð en almenningur kom saman fyrir utan musterið.
Útförin var lokuð en almenningur kom saman fyrir utan musterið. AFP

Fjölskylda og vinir, Shinzo Abe, fyrrverandi forsætisráðherra Japan, sem skotinn var til bana í síðustu viku, komu saman í musteri í Tókýó í dag vegna útfarar hans sem var lokuð almenningi.

Þó að útförin hafi eingöngu verið fyrir fjölskyldumeðlimi og nána samstarfsmenn mynduðust langar raðir af fólki fyrir utan Zojiji musterið til að votta fyrrum forsætisráðherranum virðingu sína.

„Ég kemst ekki yfir sorg mína, svo ég kom hingað til að leggja blóm og fara með bæn,“ sagði ráðgjafinn Tsukasa Yokawa, 41 árs, við AFP fréttastofuna og lýsti Abe sem „frábærum forsætisráðherra sem gerði mikið til að upphefja nærveru Japans“ á alþjóðlegum vettvangi.

Fólk fylgist með líkfylgd Abe.
Fólk fylgist með líkfylgd Abe. AFP

„Hefði verið hægt að gera meira“

„Þetta er fyrirlitlegt,“ sagði Yuko Takehisa, 51 árs aðstoðarhjúkrunarfræðingur sem býr í Kanagawa, nálægt Tókýó.

„Það hefði verið hægt að gera meira til að koma í veg fyrir þetta,“ sagði hún og kvartaði yfir því að „enginn hefði tilkynnt“ árásarmanninn til lögreglu þrátt fyrir fregnir af því að hann hefði prófað að hleypa af handgerðri byssu fyrir árásina.

Lögreglan á staðnum hefur þegar viðurkennt galla í verndaráætlun sinni fyrir forsætisráðherrann sem skotinn var til bana um hábjartan dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert