WHO segir heimsfaraldrinum hvergi nærri lokið

AFP

Heimsfaraldrinum er hvergi nærri lokið, að mati Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, WHO. Yfirmaður stofnunarinnar hefur lýst yfir áhyggjum af því að veiran leiki enn lausum hala. 

Tedros Adhanom Ghebreyesus, forstjóri WHO, kveðst óttast fjölgun smita, sem bært hefur á sér og leggur þunga byrði á heilbrigðiskerfin sem séu nú þegar ofhlaðin. 

„Nýjar bylgjur af Covid-19 sýna fram á að faraldrinum sé hvergi nærri lokið," sagði hann á blaðamannafundi, og bætti við: „Nú þegar veiran þrengir að okkur, þurfum við að spyrna til baka.“

Hann segir veiruna leika lausum hala í samfélaginu. „Löndin eru ekki að ráða við sjúkdómsbyrðina, hvort sem það varðar sjúkrahúsinnlagnir, bráðatilfelli eða þann sívaxandi fjölda sem glímir við langvarandi Covid-einkenni.“

Breytt nálgun við sýnatökur, standa í vegi fyrir því að …
Breytt nálgun við sýnatökur, standa í vegi fyrir því að hægt sé að fá jafn greinagóðar upplýsingar um tilfellin og þróun veirunnar, enda eru umtalsvert færri sýni tekin í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Tími til að taka upp grímuna á ný

Tími er til kominn að yfirvöld í hverju landi fyrir sig, grípi á ný til ráðstafanna sem hafi sýnt fram á árangur á fyrri stigum, að mati WHO. Er þar átt við grímuskyldu, bætta loftræstingu og aukna smitrakningu.

Neyðarmálaráð WHO, lagði áherslu á það á fundi sínum síðastliðinn föstudag, að Covid-19 væri enn bráð ógn við lýðheilsuna sem varði þjóðir heims. Er það hæsta viðvörunarstig sem WHO getur lýst yfir. 

Sýnatökuleysið byrgi WHO sýn

Á undanförnum tveimur vikum hefur Covid-tilfellum fjölgað um 30 prósent. Michael Ryan, yfirmaður neyðarmála hjá WHO, segir þessa fjölgun drifna áfram af undirafbrigðum ómíkron, BA.4 og BA.5. Þá séu þetta einnig afleiðingar þess að sóttvarnaaðgerðum hefur verið aflétt í flestum löndum heimsins. 

Breytt nálgun við sýnatökur, standa í vegi fyrir því að hægt sé að fá jafn greinagóðar upplýsingar um tilfellin og þróun veirunnar, að mati Ryan. 

Mikilvægt sé að stemma stigu við útbreiðslunni, enda gæti ný veira myndast, og óvissa ríki um afleiðingar þess. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert