Norskur dómstóll hefur úrskurðað að maðurinn sem er grunaður um skotárásina í höfuðborginni Ósló þegar tveir létust og 21 særðist, verði vistaður á geðdeild þar sem ástand hans verður metið.
Í lok júní var hann úrskurðaður í fjögurra vikna gæsluvarðhald.
„Dómstóllinn telur að rannsókn á stofnun sé nauðsynleg til að meta hugarástands hins grunaða," sagði í úrskurði héraðsdómstóls Óslóar.
Zaniar Matapour var handtekinn fljótlega eftir árásina 25. júní í miðborg Óslóar. Hann veitti ekki samþykki sitt fyrir því að gangast undir andlegt mat á geðdeild. Með úrskurðinum í dag fá sérfræðingar aftur á móti leyfi til að meta andlegt ástand hans.
Matapour, sem er 43 ára, er sakaður um að hafa drepið tvo menn, 54 ára og 60 ára, og sært 21 til viðbótar þegar hann hóf skothríð skammt frá hinsegin bar í miðborg Óslóar.
Sérfræðingarnir hafa núna allt að átta vikur til að meta andlega heilsu hans við Haukeland-háskólann í vesturhluta Noregs. Hægt verður að framlengja þennan tíma ef þörf krefur.