Hefði getað fengið Musk til að „grátbiðja“

Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti.
Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti. AFP

Donald Trump, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, segir í færslu á eigin samfélagsmiðli, Truth Social, að hann hefði getað sagt auðkýfingnum Elon Musk að fara niður á hnén og grátbiðja hann um aðstoð, og að Musk hefði gert það.

Musk tísti í gær að það væri orðið tímabært að Trump tæki hattinn að ofan og sigldi inn í sólsetrið.

Í kjölfarið birti Trump röð færslna á Truth Social þar sem hann skaut föstum skotum á Musk og gagnrýndi fyrirtæki hans Tesla og SpaceX.

Elon Musk.
Elon Musk. AFP

Hjálp við mörg niðurgreidd verkefni

Þá sagði hann að Musk væri einskis virði án styrkja sem hann veitti honum í forsetatíð sinni.

„Þegar Elon Musk kom í Hvíta húsið og bað mig um hjálp við hin mörgu niðurgreiddu verkefni sín, hvort sem það voru rafbílar sem keyra ekki nógu langt, bílar án ökumanna sem lenda í árekstri eða eldflaugar, án þeirra styrkja væri hann einskis virði, og þar sem hann sagði mér hvað hann væri mikill Trump-aðdáandi og repúblikani, hefði ég getað sagt: „Farðu á hnén og grátbiddu“, og hann hefði gert það.“

Í annarri færslu sagði hann að Musk ætti að einbeita sér að því að koma sér úr twitter-klúðrinu því hann skuldi nú 44 milljarða dala fyrir eitthvað sem sé kannski verðlaust.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert