Einn besti langhlaupari sögunnar, Mo Farah, segir það létti að hafa fengið fullan stuðning breskra stjórnvalda þrátt fyrir að hafa greint frá því að hafa verið seldur mansali og fluttur ólöglega til Bretlands þegar hann var barn.
Hlauparinn sagði sögu sína í heimildarmynd á BBC og hefði getað lent í vandræðum í framhaldinu vegna bresks ríkisborgararéttar síns. Innanríkisráðuneytið kvaðst aftur á móti ekki ætla að grípa til aðgerða.
„Hann er íþróttahetja, hann veitir fólki víðsvegar um landið innblástur. Þetta er áminning um hryllinginn sem fylgir því þegar fólk er selt mansali. Og við verðum að halda áfram að stöðva þessa glæpamenn sem notfæra sér fólk í viðkvæmri stöðu," sagði aðstoðarmaður Borisar Johnsons, forsætisráðherra Bretlands.
Spurður í viðtali við BBC Radio út í viðbrögð hans við svari ríkisstjórnarinnar sagði Farah: „Þetta er léttir. Þetta er landið mitt. Ekkert barn vill vera í þessari stöðu. Þessi ákvörðun var ekki tekin af mér," sagði hann.
„Og ég er bara þakklátur fyrir hvert tækifæri sem ég hef fengið í Bretlandi og...stoltur yfir því að hafa verið fulltrúi þjóðar minnar, vegna þess að það var það eina sem ég gat gert og var á mínu valdsviði. Ég hafði ekki stjórn á neinu þegar ég var yngri."