„Okkur í vinahópnum bárust þau tíðindi til eyrna að rostungur lægi spölkorn úti fyrir Jarlsberg. Við drifum okkur auðvitað af stað til að skoða þessa óvenjulegu skepnu. Það er ekki á hverjum degi sem maður sér rostung í Tønsberg.“
Þetta segir Ella Malme, 18 ára gamall íbúi Tønsberg í Noregi, í samtali við mbl.is eftir að rostungurinn Freyja, margfræg fjölmiðlastjarna í norsku samfélagi, birtist óvænt þar í bænum fyrir helgi. Malme og vinahópurinn komu tímanlega á staðinn þar sem Freyja hafði komið sér upp á bryggjuna og lá þar í makindum og tók Malme myndina sem hér fylgir.
Ekki leið á löngu uns fregnir af gestinum náðu eyrum norskra fjölmiðla og urðu þegar uppi vangaveltur um hvort þarna gæti verið um Freyju að ræða þar sem til hennar hafði sést allt annars staðar við Noregs strendur aðeins örfáum dögum áður.
„Freyja var á ferð við Rogaland örfáum dögum áður, þar sást til ferða hennar og þá hugsaði ég með mér að nú væri hún á leiðinni heim,“ segir Rune Aae, doktorsnemi í náttúruvísindum við Háskólann í Suðaustur-Noregi í Horten, í samtali við mbl.is en hann hefur um árabil fylgst með ferðum Freyju og annars rostungs, Wally, og heldur úti kortum af ferðum þeirra sem hann birtir á Facebook, Instagram og öðrum samfélagsmiðlum auk þess sem fjölmiðlar leita jafnan til hans þegar sækja þarf sérfræðiupplýsingar um hegðun og ferðir rostunga.
Kveður Aae Wally einmitt hafa sést við Ísland nýlega, eftir nokkurt tímabil þar sem engar sögur höfðu farið af honum sást hann skammt frá Höfn í Hornafirði og þaðan megi reikna með að hann hafi haldið til Svalbarða þar sem milli sjö og 10.000 rostungar haldi jafnan til.
„Eiginlega er fullheitt fyrir rostunga við Suður- og Austur-Noreg og ég hef hálfpartinn verið að vona að hún hafi sig af stað til kaldari slóða en hún ætlar greinilega að dvelja eitthvað þarna,“ segir doktorsneminn og bætir því við að Freyja sé nýkomin úr Svíþjóðarför en hafi þar á undan verið á ferð við Noreg í apríl.
Hann segir rostunga í heiminum um þessar mundir vera um 250.000, þar af haldi nálægt 200.000 sig í Beringssundinu milli Alaska og Rússlands, við Grænland séu um 20.000, annars staðar í Atlantshafi 25.000 og þeir sem þá eru ótaldir séu á Svalbarða. „Þeir halda sig gjarnan mjög þétt saman og eru því berskjaldaðir fyrir ýmsum bakteríusjúkdómum sem gætu höggvið stórt skarð í stofninn, en þeir eru ekki í útrýmingarhættu svo sem,“ segir Aae að lokum.