Þrír handteknir í tengslum við dauða unglinganna

Enn er á huldu hvað olli dauða unglinganna sem fundust …
Enn er á huldu hvað olli dauða unglinganna sem fundust á víð og dreif um barinn. AFP/Phill Magakoe

Lögreglan í Suður-Afríku hefur handtekið þrjá í tengslum við dauða 21 unglings á bar í borginni East London í júní. Eigandi barsins er á meðal þeirra sem voru handteknir. Eru þeir grunaðir um sölu á áfengi til barna undir lögaldri, en hinir látnu voru á aldrinum 13 til 17 ára.

Eigandi barsins, sem er 52 ára, á að mæta fyrir dómstóla í næstu viku, en tveimur starfsmönnum hans hefur verið gefinn kostur á að greiða um 100 punda sekt fyrir að selja áfengi til fólks undir 18 ára aldri. Þeir eru 33 og 34 ára.

Enn er á huldu hvað olli dauða unglinganna sem fundust á víð og dreif um gólf og borð, en engir áverkar voru á líkunum.

Mögulega andað einhverju að sér

„Staðurinn var troðfullur. Aðgangur var ókeypis og einnig var boðið upp á ókeypis áfengi. Við byrjuðum að drekka og skemmta okkur með öðrum,“ sagði 16 ára stúlka við BBC, sem vildi ekki láta nafns síns getið.

„Þau hrundu niður eins og flugur,“ bætti hún við.

Enn á eftir að ljúka við eiturefnaskýrsluna, en meinafræðingar hafa bent á að unglingarnir kunni að hafa andað einhverju að sér eða neytt, sem hafi orsakað dauðsföllin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert