Búist er við því að hitabylgjan sem hefur gengið yfir suðvesturhluta Evrópu að undanförnu nái hámarki á Spáni í dag.
„Í dag búumst við við heitasta deginum í þessari hitabylgju,“ sagði spænska veðurstofan.
Spáð er 40 stiga hita í dölunum í kringum þrjár stórar ár, Guadiana, Guadalquivir og Tagus.
Í gær var varað við miklum hita, sérstaklega í héraðinu Andalúsíu í suðri, Extremadura í suðvestri og Galicia í norðvestri. Fólk var hvatt til að drekka nóg af vatni, vera léttklætt og halda sig í skugga eða þar sem loftkæling er til staðar.
Hitinn fór upp í 45,6 stig í borginni Almonte í Andalúsíu í gær.
Í vesturhluta Spánar, skammt frá landmærunum við Portúgal hafa miklir skógareldar geisað og hafa þeir að minnsta kosti náð yfir 3.500 hektara svæði.
Búist er við því að hitastigið á Spáni lækki undir lok vikunnar en að hitabylgjan haldi áfram í gegnum Frakkland og Bretland.
Stjórnvöld í London hafa gefið út næsthæsta viðvörunarstigið vegna hitans. Talið er mögulegt að hitamet verði slegið í Bretlandi á næstunni. Það hæsta til þessa mældist í Cambridge 25. júlí 2019, 38,7 stig.
Franskar veðurstofur hafa einnig varað við umtalsverðum hita frá sunnudegi til þriðjudags og að hitinn geti á þessum tíma farið upp í 40 gráður.
Skógareldar hafa einnig geisað í suðvesturhluta Frakklands og náð yfir 3.700 hektara svæði.