Breska veðurstofan hefur gefið út sína fyrstu „rauðu“ viðvörun vegna óvenjumikils hita. Hún spáir því að nýtt met verði mögulega sett í næstu viku og hitinn fari upp í 40 stig.
„Líkur eru á sérstaklega miklum hita snemma í næstu viku og jafnvel nýju meti,“ sagði Paul Gundersen, yfirmaður hjá bresku veðurstofunni.
Að sögn veðurstofunnar eru helmingslíkur á því að hitastigið í landinu fari í 40 gráður í fyrsta sinn á mánudag eða þriðjudag. 80% líkur eru á því að fyrra met, 38,7 gráður, frá árinu 2019, verði slegið.
Mikil hitabylgja hefur gengið yfir suðvesturhluta Evrópu að undanförnu og því var spáð að hún næði hámarki á Spáni í gær.