Hatice Cengiz, unnusta Jamals Khashoggis, blaðamanns sem var myrtur árið 2018, segir Biden Bandaríkjaforseta hafa sent krónprinsi Sádi Arabíu skýr skilaboð í heimsókn sinni til landsins.
Hún segir hendur Bidens ataðar í blóði fórnarlamba Sádi-Arabíu sem muni verða fleiri, eftir að Biden klessti hnefa Mohammad Bin Salman, krónprins Sádi Arabíu, í opinberri heimsókn forsetans þangað í dag.
Hvíta húsið hefur gefið þær skýringar að Biden hafi klesst hnefa prinsins og forsætisráðherra Ísraels á miðvikudag til þess að forðast Covid-smit.
Á Twitter ímyndar hún sér að Khashoggi myndi bregðast við með þessum orðum:
„Er það svona sem þú ætlar að bregðast við morðinu á mér? Hendur þínar eru ataðar í blóði næsta fórnarlambs Mohammad Bin Salman,“ skrifar hún en Biden hefur áður sagst ætla að bregðast við morðinu á Khashoggi.
Biden hefur þá sagst hafa rætt um Khashoggi við Salman á fundi þeirra í dag.
Khashoggi, sem var gagnrýninn á stjórnvöld í Sádi-Arabíu, hvarf 2. október árið 2018, eftir að hafa heimsótt ræðismannsskrifstofu sína í Istanbúl í Tyrklandi.
Krónprins Sádi-Arabíu, Mohammed bin Salman, tók fulla ábyrgð á morðinu í sjónvarpsviðtali en þvertók fyrir að hafa fyrirskipað morðið.
What Jamal Khashoggi would tweet today: pic.twitter.com/Gv4Up7TLgd
— Hatice Cengiz / خديجة (@mercan_resifi) July 15, 2022